154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég hristi hausinn jafn mikið og hv. þingmaður yfir þessu. Það var annað sem ég áttaði mig á að væri skrýtið varðandi þessa tvo hópa sem hvorugur getur farið í verkfall og krafist kjarabóta, en það er aukavinnan. Ef fólk á lífeyri fer og vinnur eitthvað, reynir að koma sér í hreyfingu og virkni og svoleiðis, þá kemur fátæktargildran á fullri ferð og allt er skert, eða ansi mikið skert og þegar komið er yfir ákveðið mark þá er allt skert. En svo er það hinn hópurinn hérna, við. Þegar hv. þm. Ásmundur Friðriksson sagðist ætla að vera með ferðaþjónustu í sumar, aukatekjur, þá klóraði ég mér í hausnum og hugsaði: Af hverju eru þingmenn ekki með svona tekjuskerðingarákvæði í lögum um þingfararkaup? Ég lagði það til, það hefur ekki farið mjög langt, kannski þennan vetur. En það er bara sambærilegt á við fólk á lífeyri. Þingstarfið er miklu meira en full vinna, alla vega fyrir þá sem gera eitthvað hérna, ég veit ekki af hverju fólk ætti að vilja vinna meira eða geta unnið eitthvað mikið meira heldur en þingstarfið. Ef það vinnur eitthvað meira en það þá er það augljóslega að vinna minna sem þingmenn. Að sjálfsögðu ætti það að skerða þingfararkaupið, en nei. Við fáum kaupauka og alls konar möguleika á starfskostnaðardóti o.s.frv., sem er skiljanlegt af ýmsum ástæðum. En fyrr má nú vera þegar við berum þetta tvennt saman, hvernig launaþróun þingmanna er tryggð en ekki þeirra sem eru á almannatryggingum og hvernig skerðingar á launum þingmanna vegna aukatekna eru engar á meðan þær eru heill hellingur hjá þeim sem eru á lægri launum.